Áherslur

Grunngildi

Mikilvægasta verkefni Sjálfstæðisflokksins er að skapa skilyrði til þess að verðmætasköpun landsmanna sé sem mest þannig að lífskjör þjóðarinnar batni jafnt og þétt.

Frelsi einstaklingsins er grundvöllur margbreytilegs og fjölbreytts mannlífs ásamt því að vera forsenda markaðshagkerfis.  Eftir því sem svigrúm einstaklinganna er meira því líklegra er að hver og einn fái notið sín og fundið kröftum sínum og hæfileikum viðnám. Frjálst og opið þjóðskipulag er grundvallað á frelsi einstaklingsins, einstaklingshyggjan er því mannúðarstefna. Jafnframt sýnir reynslan að öflug verðmætasköpun, nýjungar og framfarir verða mestar þegar einstaklingarnir hafa nægjanlegt svigrúm.

Sjálfstæðisflokkurinn á að standa vörð um velferðarkerfi þjóðarinnar með því að atvinnulífið skapar næg verðmæti til þess að standa undir velferðarkerfinu.

Sjálfstæðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem getur brúað bilið á milli markaðshagkerfisins og velferðarkerfisins. Atvinnulífið er forsenda velferðarkerfisins og velferðarkerfið forsenda jöfnuðar og félagslegs öryggis.

Áherslur næstu ára – 10 atriði.

1. Lækka þarf skatta á vinnandi fólk og fyrirtæki. Þannig verði ýtt undir fjárfestingar og kaupmáttur almennings aukinn. Auknar fjárfestingar eru forsenda þess að atvinnuleysið hverfi.

2. Endurskipulagning á rekstri ríkissjóðs – aukið samstarf hins opinbera og einkaaðila – ríkið sjái um fjármögnun á þjónustu en einkaaðilar veiti hana í ríkari mæli en nú er.

3. Tækifæri í orkunýtingu verði nýtt og þannig ýtt undir hagvöxt. Rammaáætlun verði lokið í sátt. Leitast verði við að laða til landsins sem fjölbreyttastan iðnað.

4. Framlög til háskóla verði jafnt og þétt aukin á næstu árum þannig að Ísland komist í hóp þeirra ríkja sem mestu fjármagni verja til háskólamenntunar og rannsókna.

5. Menntakerfið verði endurskoðað þannig að það svari betur þörfum atvinnulífsins.

6. Pólitískri óvissu verði eytt.  Árásum á einstakar atvinnugreinar verði hætt, skattahækkanir stöðvaðar og dregnar til baka, ríkisvaldið standi við samninga og loforð.  Festa og fyrirsjáanleiki ásamt virðingu fyrir lögum og reglum verði í fyrirrúmi í öllum stjórnvaldsákvörðunum.

7. Birta þarf skýra áætlun um hvernig gjaldeyrsihöftunum verði aflétt. Skýrt þarf að vera hver skuldastaða Íslands er. Í öllum samskiptum við núverandi kröfuhafa þarf að koma fram að hagsmunir Íslands verða hafðir í forgangi og hvergi hvikað frá þeim. Tryggt verði að bankakerfi landsmanna verði rekið á forsendum íslenskra hagsmuna en ekki með hagsmuni vogunarsjóða og annarra slíkra að leiðarljósi.

8. Ljúka þarf vinnu við að gera upp þau heimili sem verst fóru út úr bankahruninu. Ógerningur er að gera allt fyrir alla í þeim málum, gæta þarf þess að takmarkaðir fjármunir ríkissjóðs nýtist sem best.

9. Endurnýja þarf tækjakost stóru spítalanna og tryggja að þjóðin geti áfram notið góðrar heilbrigðisþjónustu.

10. Gert verði hlé á samningaviðræðunum við ESB og þær ekki aftur hafnar nema fyrir liggi samþykki þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samandregið:

Aukin fjárfesting og verðmætasköpun leiða til aukinna tekna fyrir almenning og ríkissjóð.

Endurskipulagning á rekstri ríkissjóðs dregur úr rekstrarkostnaði án þess að þjónusta skerðist.

Breyta þarf forgangsröðun í þágu menntunar og heilbrigðisþjónustu.

Hagvöxtur næstu ára byggir á nýtingu náttúruauðlinda, menntun og vísindum. Nauðsynlegt er að fjárfesta í öllum þessum geirum til þess að hagvöxtur verði nægur.
Segðu þína skoðun