Á Seðlabankinn að berjast gegn hækkunum ríkisstjórnarinnar?


Jón Steinsson hagfræðingur skrifaði grein í Fréttablaðið um nauðsyn þess að Seðlabankinn hækkaði vexti vegna verðbólgu sem nú mælist 6,5 prósent. Jón finnur að því að stjórnmálamenn og aðrir styðji ekki nægjanlega vel við Seðlabankann og gagnrýni hann of hart fyrir stefnu sína. Málið sem Jón hreyfir í grein sinni er mikilvægt og nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn að bregðast við.


Vextir og þensla.


Meginröksemd Jóns er sú að vextir dragi úr eftirspurn og því þurfi nú að hækka vexti umtalsvert til að stöðva verðbólguna. Um það verður ekki deilt að vextir Seðlabankans hafa áhrif á eftirspurn, hærri vextir draga úr útlánum og neyslu en auka sparnað. Sennilega er enginn ósammála þessu. En það er rétt að skoða aðeins samsetningu verðbólgunnar áður en Seðlabankinn fer að þeim ráðum að hækka eigi vexti um 2 til 2,5 prósent. Það skiptir nefnilega máli hvers eðlis verðbólgan er. Er hún til kominn vegna aukinnar eftirspurnar eða vegna aukins kostnaðar? Viðbröð Seðlabankans hljóta að ráðast nokkuð af því.